Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:19:50 (5167)

2002-02-26 18:19:50# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Einar Már Sigurðarson eigi ekki að þurfa að vera svo undrandi yfir því að mismunandi skoðanir og túlkanir séu í Sjálfstfl. og ég hygg í báðum stjórnarflokkunum á því hvernig eigi að reyna að leysa byggðamálin. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem menn hafa rætt hér í áratugi án þess að komast að neinni niðurstöðu og við höfum verið að sjá fólk streyma frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, sama hvað gert hefur verið. Það er því ekkert skrýtið þó að menn hafi mismunandi skoðanir.

Það er náttúrlega ljóst að þær tillögur sem hérna eru lagðar fram eru ekki með þeim formerkjum sem við, sumir hverjir, teljum að nái þeim tilgangi sem til er ætlast. Við viljum sjá aðrar áherslur hafa þegar komið fram. Ég veit ekki betur en nokkrir þingmenn Sjálfstfl. hafi talað mjög tæpitungulaust um það sem þeir vilja og ég hef sagt hér hvað mér finnst og ég veit að hæstv. ráðherra mun taka það allt til skoðunar og við sjáum hvað setur.