Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:14:01 (5224)

2002-02-26 21:14:01# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað ræður efnahagsástand á hverjum tíma mestu um viðhorf fólks í þessum efnum því að það ræður því hvert vaxtastig er, hver kostnaðurinn er við framfærslu o.s.frv. Á meðan stöðugleiki er í efnahagslífinu þá er tiltölulega auðvelt að hafa stjórn á þessum þáttum. En þegar verðbólgan fer á skrið á nýjan leik getur orðið afar erfitt fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að hafa áhrif á stöðu atvinnumála til betri vegar. Þess vegna hefur verkalýðshreyfingin, eins og menn þekkja, lagt gríðarlega mikla áherslu á að allir aðilar komi að því að ná niður verðbólgunni sem fór af stað á síðasta ári. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það er aðalatriðið, þ.e. að halda verðbólgunni í skefjum. Með því móti tekst að halda niðri fjármagnskostnaði og öðrum þáttum sem hafa áhrif á framfærslukostnað heimilanna.