Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:50:48 (5345)

2002-02-28 11:50:48# 127. lþ. 85.1 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta inn í og þakka hv. formanni samgn., Guðmundi Hallvarðssyni, fyrir skjót viðbrögð. Við ræddum í morgun um þessi mál sem hafa verið mikið í umfjöllun, sjálfvirku tilkynningarskylduna og það allt saman. Út af skipsskaðanum síðasta við Vestmannaeyjar þá þarf hv. samgn. að taka á því máli. Ég þakka formanni fyrir að bregðast svo skjótt við og vænti þess að fundur verði boðaður sem allra fyrst og tekið á málinu og aðilar kallaðir til.

Ég vil geta þess að ég tel að fara þurfi yfir ýmis fleiri mál og segja frá því að sl. sumar þegar Una í Garði fórst fyrir norðan land, þá gerðist þar ýmislegt sem sýndi brotalamir í kerfinu. Það var greinilegt að björgunarbátur t.d. á Siglufirði, björgunarsveitin þar var ekki kölluð út og skip, rækjutogarar og aðrir sem voru í námunda við slysstað vissu ekki af því. Það var ýmislegt skulum við segja óheppilegt sem gerðist sem full ástæða er til að ræða um. Ég óskaði þá strax eftir fundi í samgn. til að ræða það mál en málið féll niður út af öðrum ástæðum, millibilsástandi sem var í samgn. Ég tel, herra forseti, að það þurfi að fara í gegnum þetta vegna þess að ég minnist þess þegar ég, nýorðinn þingmaður, var boðaður til að mæta niður í Slysavarnahús þegar sjálfvirka tilkynningarskyldan var formlega tekin í notkun, hvað ég var ákaflega stoltur sem Íslendingur yfir því kerfi sem við værum að búa til og hvað þetta væri mikið öryggiskerfi fyrir sjómenn. En svo virðist vera sem einhverjar brotalamir séu í því kerfi, vonandi byrjunarörðugleikar sem rétt er að fara yfir. Ég vildi rétt í lokin segja að ég held að þetta þurfi að ræða í hv. samgn. og vona að það verði gert og tel að við samgöngunefndarmenn allir munum flýta okkur að finna tíma til að sá fundur geti orðið sem allra fyrst.

Ég vil líka skjóta því að að ég mun óska eftir því að ýmsir aðilar sem vinna að björgunarmálum á landsbyggðinni verði kallaðir til þess fundar til að ræða björgunarmál og sérstaklega þar sem ég veit um menn sem hafa geysilega margt fram að færa varðandi sjóslysið fyrir norðan land síðasta sumar sem ég gerði að umræðuefni.