Alþjóðaþingmannasambandið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:54:28 (5414)

2002-02-28 17:54:28# 127. lþ. 85.7 fundur 390. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 2001# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hryggir mig. Ég hafði vænst þess að hinn vaski Vestfirðingur sem hér mælti áðan hefði fyrir sína hönd og sinna nánustu pólitísku vandamanna stigið það mikla skref að lýsa því yfir að ekki ætti einungis að stofna sjálfstætt ríki Palestínu heldur líka með Jerúsalem sem höfuðborg. Það er meiri kjarkur en margir hafa haft.

Ég kom hins vegar í ræðustól áðan og gerði þetta að umtalsefni vegna þess að sá fyrirvari sem hv. þm. segir að a.m.k. þingmenn Sjálfstfl. í þessari för hafi gert við þetta atriði kemur ekki fram í greinargerðinni. Það veldur því að ég kem hér upp en ég sætti mig fullkomlega við skýringar hv. þm. en óska þess auðvitað að hann megi í framtíðinni þenkja um þetta mál aftur og komast að þeirri niðurstöðu sem ég réði af greinargerð hv. þm. að hann hefði gert í ferð sinni á ársfund Alþjóðaþingmannasambandsins.

Batnandi mönnum er best að lifa eins og enginn veit betur en hv. þm. og ég vænti þess að í þessu efni fari honum batnandi.