ÖSE-þingið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 18:39:09 (5419)

2002-02-28 18:39:09# 127. lþ. 85.10 fundur 519. mál: #A ÖSE-þingið 2001# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni Íslandsdeildar ÖSE fyrir skýrslu hans. Ég tel gott starf unnið á vegum ÖSE, enda starfað í anda göfugra markmiða, á grundvelli Helsinki-sáttmálans. ÖSE er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.

Ég átti þess kost að sinna eftirlitshlutverki í Kosovo á vegum ÖSE á sl. hausti og kynntist þá af eigin raun hve ágætt starf er þar unnið. En tilgangurinn með að koma upp í andsvar er að inna hv. þm. formann Íslandsdeildar ÖSE eftir áherslum Íslendinga innan þessara samtaka. Hann greindi frá fjölmörgum fundum, skipulagsbreytingum og ályktunum, en er það eitthvað öðru fremur sem Íslendingar hafa lagt áherslu á á þessum samstarfsvettvangi?