Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:57:03 (5500)

2002-03-04 20:57:03# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með atkvæðagreiðslublaðið fyrir framan mig og ætla mér ekki að fullyrða neitt um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi greitt atkvæði með veðsetningunni ef hann segist ekki hafa gert það. Ég er tilbúinn til að biðja hann afsökunar á því ef þetta er misminni hjá mér.

En málið snýst náttúrlega um það að á þeim tíma þegar samningsveðin voru til umræðu í þinginu þá greindi menn mjög á um hvað verið væri að gera með þessum lögum. Sumir héldu því fram að ekki væri verið að heimila veðsetningu aflaheimilda með skipi og sögðu að það hefði verið bannað og það er rétt. Það var bannað með einu ákvæði að veðsetja aflaheimildir. En með næsta ákvæði var heimilað að veðsetja aflaheimildir með skipi. (Gripið fram í: Þú tókst þátt í þessari vitleysu?) Ég greiddi atkvæði gegn þessu. (Gripið fram í.) Það er alveg á hreinu hvernig ég greiddi atkvæði. Mig minnti að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefði gert öfugt við mig, en ég bið hann afsökunar á því aftur ef það er misminni hjá mér og það leiðréttist hér með.

Niðurstaðan í málinu er samt sem áður sú að aflaheimildirnar eru veðsettar með skipum og þess vegna er nánast ógjörningur að hreyfa mikið við núverandi aflaheimildakerfi öðruvísi en að greiða upp allar skuldir sem á útgerðinni hvíla. Það er augljóst að það er ekki hægt að gera nema á óskaplega löngum tíma. Svo geri ég ráð fyrir því, eins og ég hef komið inn á hér áður, að þeir sem leggja til fyrningarleið hafi áttað sig á að það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi en að borga þetta upp á mjög löngum tíma og þess vegna séu þeir að leggja þetta til. En ég er aftur á móti alfarið á móti því að nota fyrningarleið því að hún hlýtur að fara mjög illa með landsbyggðina.