Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:08:05 (5507)

2002-03-04 21:08:05# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni ummæla hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér áðan um að það þyrfti að skoða hvort ekki bæri að fella niður sjómannaafsláttinn og útgerðin tæki yfir að greiða það, ef ég hef skilið hann rétt, er rétt að vekja athygli á að skattafsláttur sjómanna nemur u.þ.b. 1,2--1,3 milljörðum á ári, þ.e. beinn skattafsláttur. Beinar tekjur ríkisins minnka sem því nemur. Ef taka ætti þetta í gegnum laun, útgerðin ætti að greiða þetta og þetta ætti að fellast niður, þyrfti útgerðin að greiða laun til sjómanna upp á 2,2--2,3 milljarða til að sjómenn stæðu jafnir eftir út frá sömu reglu og notuð var gagnvart forseta Íslands þegar skattfrelsi hans var afnumið.

Varðandi það sem hv. þm. sagði áðan varðandi það að sjómenn hefðu mjög há laun og hefðu hækkað verulega í launum á undanförnum árum. Ég er því miður ekki með tölur fyrir síðasta ár en á árinu 2000 voru meðallaun sjómanna talin vera 2,9 millj. kr. rúmar, 2.950.000. Það voru talin meðallaun 6.967 sjómanna samkvæmt Þjóðhagsstofnun. Ef þeir voru skoðaðir sérstaklega sem höfðu starfað lengur en 274 daga á ári á sjó voru meðallaunin 4,3 millj. rúmlega. En, nota bene, tekjurnar höfðu í báðum tilvikum lækkað, annars vegar um 75 þús. kr. á milli ára og hins vegar um 125 þús. á milli ára. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst þetta ekki mikil laun fyrir að vera 275 daga úti á sjó.