Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:12:27 (5509)

2002-03-04 21:12:27# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:12]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi launin sem hér hafa orðið að umræðuefni er það svo að vafalaust má finna dæmi í flotanum um að skipstjórar á albestu skipum geti komist upp í að vera með, ég mundi segja svona áttföld meðallaunin. Ég þekki a.m.k. ekki dæmi um meira, en það kann þó að vera.

Ég held hins vegar að þegar menn eru að skoða þetta verði alltaf að skoða meðallaunin í greininni. Það er einfaldlega þannig að sumir afkasta meira en aðrir og sumir hafa betri kvótastöðu en aðrir. Það er ekki hægt að fella dóm yfir mönnum út frá því. Þetta eru ágóðalaun og ef mennirnir hafa góð laun þá hlýtur útgerðin að hafa afar góða afkomu.