Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:08:26 (5522)

2002-03-04 22:08:26# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:08]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú missti ég alveg þráðinn. (Gripið fram í: Já, þú varst svo utan við þig ...) Ég hlýt að hafa misst hann alveg hreint vegna þess að ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að aflagjaldið, þessi auðlindaskattur, eigi að bætast hér ofan á. Mun leigan lækka við að leggja auðlindagjaldið á? Verður þetta auðveldara þá eða léttara? Hvaðan í ósköpunum kom sú hugmynd? Hún kom hvergi fram. Þetta liggur alveg fyrir. Það er verið að leggja hér til viðbótarskatt, aukaskatt, sérstaklega á þessa einu atvinnugrein. Ég endurtek spurninguna um eina atvinnugrein sem er í bullandi samkeppni við alla matvælaframleiðslu heimsins: Hver borgar? Ég spyr aftur: Hver borgar? Getur nokkur annar borgað en fólkið sem vinnur í þessari atvinnugrein? (GE: Þeir sem nýta.) (Gripið fram í.) Getur einhver annar borgað en þeir? Ég segi að það liggur alveg fyrir að verið er að skattleggja hér sjómenn og fiskverkafólk sérstaklega. Þess vegna er öll þessi aðferðafræði, öll þessi hugmyndafræði sem kemur frá þessari auðlindanefnd eða hvað hún hét, eða endurskoðunarnefnd, byggð á misskilningi, miklum ranghugmyndum og mjög hættulegum hugmyndum.

Herra forseti. Það liggur fyrir að ég er andsnúinn þessu auðlindagjaldi, hef alltaf verið og ætla alltaf að vera. En síðan kemur stjórnarandstaðan, hver þingmaðurinn á fætur öðrum, og er ekki á móti auðlindagjaldinu eins og ég. Nei, hún telur auðlindagjaldið ekki nógu hátt. (Gripið fram í.) Mig er ekki að dreyma þetta, herra forseti. Ég þarf ekki að klípa í handlegginn á mér til að vita að þetta er raunverulegt. Ég er að upplifa þetta. Þetta er svona. (Gripið fram í.) Þetta er ekki draumur. Þannig er þetta. Hér stend ég og mótmæli gjaldinu en stjórnarandstaðan telur það of lágt, að það eigi að vera hærra.