Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:10:35 (5523)

2002-03-04 22:10:35# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:10]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að veiðiheimildum eigi að úthluta til manna sem eru í þessari grein og að þeir eigi að greiða fyrir aflaheimildirnar samkvæmt markaðslögmáli. Það getur vel verið að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson geri sér ekki grein fyrir því hvað ég er að tala um þegar ég tala um markaðslögmál. Ég vil fara fyrningarleiðina. Ég vil að aflaheimildum sé skilað inn á ákveðnum tíma samkvæmt því frv. sem við samfylkingarmenn höfum lagt fram. Síðan vil ég gera öllum jafnhátt undir höfði þannig að menn hafi frjálsan aðgang að markaðnum og að farið verði eftir markaðslögmáli.

Síðan vil ég bara benda á, eins og ég gerði í ræðu minni, virðulegur forseti, að afleiðing þess kerfis sem við höfum búið við blasir við. Ég fór yfir það áðan að aflahlutdeild minnkaði um meira en helming á Vestfjörðum í þorskígildistonnum frá 1992--2000. Þessu vil ég breyta og ég tel og veit að Vestfirðingar eru tilbúnir og geta gert út á mjög hagkvæman máta miðað við markaðinn eins og hann leggur sig ef aflaheimildirnar yrðu settar á markað. Þetta veit ég og er sannfærður um og engu breytir hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er á móti mínum skoðunum eða ekki. Hann er á móti frv. Það er vitað. Ég vil fara markaðsleið en hann vill fara aðra leið en þá.