Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:12:16 (5766)

2002-03-07 16:12:16# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um margt varðandi þetta mál, við hv. þm. Drífa Hjartardóttir. Ég tek undir með henni, að það er afskaplega ánægjulegt að sjá allan þann árangur sem blasir við af starfi Landgræðslunnar á Suðurlandi. Þó mér finnist ég ekki vera gömul manneskja þá blasir við mér, þegar ég keyri um hérað, stórkostlegur árangur frá því sem ég man eftir á árum áður. Seint verður fullþakkað þeim mönnum sem hafa unnið, með stuðningi stjórnvalda, að landgræðslu hér á Íslandi.

Ég held hins vegar að varðandi upprunalegar jurtir eigum við eftir að ræða það mjög ítarlega í hv. landbn. Vonandi verður það rætt í hv. umhvn. líka í tengslum við þetta frv.

Þó ég hafi ekki tekið upp neina andstöðu gegn lúpínu eða gegn innfluttum jurtum þá held ég að við eigum að fara mjög varlega með þær þar sem fallegur upprunalegur gróður er fyrir.