Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:29:35 (5794)

2002-03-07 18:29:35# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki verður allt bundið í lög, segir hæstv. landbrh. og vitnar í gjörðir Sveins heitins í Steinsholti og það hversu miklir græðarar og verndarsinnar bændur eru. Ég er sammála honum um það. Það má allt til sanns vegar færa að bændur hafa verið vörslumenn landsins og þeir hafa haft tilfinningu og ríkar tilfinningar til landsins og þeir lesa það og ég dreg sannarlega ekki úr þeim mikla auði og þeim mikla fjársjóði sem býr í hjörtum, hugum og gjörðum bænda.

Hins vegar er það alveg ljóst að okkur hefur gengið afskaplega illa og við erum öll sammála um að það þurfi að gera svo miklu, miklu meira og aðgerðir okkar þurfi að vera svo miklu róttækari. Og af því að ég vitnaði til orða Ólafs Arnalds áðan og hvatningar hans um að við friðuðum hreinlega auðnir og rofsvæði, þá finnst mér mjög mikilvægt að það sé rætt í samhengi við þessa umræðu, að ekki sé nóg að treysta á vel innréttaða og vel meinandi bændur, kannski þurfi að setja reglurnar í lögin og gera þær stífar, sérstaklega meðan við erum að ná fótfestu með einhvers konar árangur, þá þurfum við e.t.v. að sjá til þess að auðnir og rofsvæði verði hreinlega vernduð.

Einnig er vert að hafa í huga að gróðurvinjar hálendisins sem eftir standa eru dýrmætar. Þær hafa mjög mikið verndunargildi og það er umhugsunarefni í sjálfu sér að hæstv. landbrh. skuli eftir þau fögru orð sem hann hefur mælt hér standa að því að stórum hlutum gróðursvæða hálendanna verði eytt í væntanlegri Kárahnjúkavirkjun.