Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:00:10 (5841)

2002-03-08 14:00:10# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst stundum umræðan um heilbrigðismálin dálítið ruglingsleg. Ég er nefnilega alveg viss um að meðal íslenskra stjórnmálaflokka eru menn alveg samstiga í grundvallaratriðum og hafa verið það áratugum saman. Allir íslenskir stjórnmálaflokkar eru fylgjandi því að við stöndum að þessu með samhjálp. Það hafa aldrei verið neinar deilur um það og eru ekki neinar deilur. Þegar menn tala um einkavæðingu eða einkarekstur, þá eru menn að tala um þá eðlilegu hluti að á hverjum tíma leiti menn leiða til þess að gera hluti svo hagkvæma sem þeir helst trúa.

Auðvitað geta samningar sem ríkið er að gera verið misgóðir. Auðvitað getur ríkinu orðið á í samningum rétt eins og hverjum öðrum. Það sem við verðum að athuga í þessu sambandi er að Ísland og íslensk stjórnvöld eru að eyða tiltölulega mjög hárri upphæð miðað við verga landsframleiðslu í heilbrigðismál. Sérstaklega með tilliti til þess hvað þjóðin er ung. Vandamálið á Íslandi er hins vegar nákvæmlega það sama og er í öllum öðrum vestrænum ríkjum, að erum við að missa allan kostnaðinn upp í hátækniþjónustu og grunnþjónustan verður eftir. Þetta er vandamál um alla Vestur-Evrópu. Ég hef minnst á þetta áður og ég vil sérstaklega hvetja menn til að átta sig á því að Frakkland hefur gengið fram fyrir skjöldu í að reyna að vinna á þessu vandamáli, Hollendingar líka, og þetta er hlutur sem við verðum að fara mjög gaumgæfilega í gegnum á næstu árum til að hafa stjórn á þessu, til að halda þeirri góðu heilbrigðisþjónustu sem við höfum og allir eru sammála um að við viljum hafa.