Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:00:41 (6355)

2002-03-21 11:00:41# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þegar ég bað um orðið fyrir talsverðu síðan undraðist ég mjög ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar því að sú umræða sem hér fór fram áðan hefur farið fram nánast tvisvar, þrisvar í viku um nokkuð langt skeið. Ég held að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hafi flutt álíka gæfulega ræðu fyrir ekki margt löngu, og þar var einmitt farið yfir þetta.

Ég vil þó segja þótt ég þrammi ekki alltaf í takt með hv. 1. þm. Norðurl. e. að þetta er þó eitt af því sem hann hefur beitt sér fyrir og komið á í þinginu, að menn taki upp dægurmál og ræði þau í upphafi þingfundar. Ég held að full ástæða sé til að þakka fyrir það. Ég held að það sé til þess fallið að gera þingið meira lifandi og meira til þess fallið að fjalla um þá hluti sem eiga sér stað í samfélaginu á hverjum tíma. Ég vil því frekar þakka hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa beitt sér fyrir því að taka þetta upp en harma að menn skuli vera að finna að því eins og hv. þm. Hjálmar Árnason gerði.