Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:05:15 (6596)

2002-03-25 18:05:15# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. landbrh. um mikilvægi þess að efla og auka gæði í framleiðslu sauðfjárafurða og í sauðfjárrækt. Einnig tek ég undir að sauðfjárbúskapur sé stundaður með þeim hætti að hann sé vistvænn, umhverfisvænn og sjálfbær í sátt við landið og jafnframt sé þar stundað ræktunarstarf og meðferð á búfé sem skilar mestum og bestum arði á hverjum tíma.

Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. ráðherra út í ákveðin atriði. Í þeim tillögum sem hér er verið að leggja fram um gæðastýringuna, það að tengja greiðslur til framleiðenda aðild þeirra að gæðastýringunni, er látið að því liggja að skilyrði fyrir samningnum, að þessar magntengdu greiðslur vegna gæðastýringarinnar kæmu ekki inn í samninginn nema þær væru tengdar gæðastýringunni. Ég hef heyrt haft eftir hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, sem er einn af fjármálasérfræðingum Sjálfstfl. á þingi, að svo hafi alls ekki verið. Það hafi verið ákveðin heildarupphæð í samningnum og síðan hafi útfærslan verið í annarra höndum. Þetta tvennt, gæðastýringin og heildarupphæðin sem var lögð inn í samninginn, tengdust því ekki jafnrækilega og hæstv. ráðherra lét að liggja.