Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:34:46 (6634)

2002-03-25 21:34:46# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:34]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kom að því í dag að mér þykir sauðfjársamningur þessi í heild mjög flókinn og í samanburði við mjólkursamninginn er þetta ekki skilvirkt fyrirkomulag. Við höfum séð mjög mikla skilvirkni einmitt í samningnum við kúabændur þar sem salan hefur verið frjáls á milli manna. Ég tel að þar hafi orðið mikil og góð hagræðing. Ég þekki það sjálf sem mjólkurframleiðandi sem hefur verið að kaupa nokkur þúsund lítra á hverju ári að þetta hefur alla vega verið til góðs í mínu búi og svo er hægt að segja um marga. Með þessari hagræðingu eru menn að stækka einingarnar sínar þannig að afkoman er betri. Svo langar mig til að spyrja hæstv. landbrh. um 7.500 ærgildin og hvort hann sjái að þau deilist að einhverju leyti út á sunnlenska sauðfjárbændur.