Ályktun um sjálfstæði Palestínu

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:08:02 (7108)

2002-04-08 15:08:02# 127. lþ. 114.1 fundur 480#B ályktun um sjálfstæði Palestínu# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Enginn efast um hinn góða vilja hæstv. forsrh. Hann hefur mörgum sinnum komið fram á þessu þingi en það dugir ekki lengur. Það felast ákveðin skilaboð í því ef fyrir þinginu liggur tillaga um stuðning við málstað Palestínumanna, tillaga sem byggir á nákvæmlega því sem hæstv. utanrrh. er að tala um, þ.e. ályktunum Sameinuðu þjóðanna, og hún fæst ekki afgreidd.

Hvaða skilaboð eru það til umheimsins, herra forseti, ef við blasir að hæstv. utanrrh. segir að breið samstaða sé í þinginu með málstað Palestínumanna og fyrir liggur tillaga um stuðning en hún fæst ekki afgreidd?

Ég er líka að tala við formann Framsfl. sem hefur hefð fyrir því að styðja málstað Araba og Palestínumanna í skærunum við Ísrael. Það liggur einfaldlega fyrir að oft var þörf. Var einhvern tíma nauðsyn? Já, það var núna. Og núna verð ég segja, herra forseti, að það var í valdi hæstv. utanrrh. að sjá til þess að vilji meiri hluta þingsins fái fram gengið. Það er bara einn flokkur sem virðist draga lappirnar í þessu en það er ekki flokkur hæstv. utanrrh.