Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:32:51 (7285)

2002-04-09 14:32:51# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er ansi viss um að hv. þm. man ekki rétt samtöl okkar sem áttu sér stað 1988 eða 1989, geri ég ráð fyrir. Ég lét reikna út fyrir mig hvað það mundi kosta að hafa kaupleiguíbúðir og ég man að það var einmitt til umræðu í Borgarnesi þegar ég var þar á fundi og ræddi þetta við marga sveitarstjórnarmenn. Borgnesingar höfðu sérstakan áhuga á þessu kaupleigukerfi. Við sáum fyrir okkur að leigan í því yrði 60--70 þús. kr. á mánuði þá. Það var algjörlega óviðráðanlegt að taka upp þetta nýja kaupleigufyrirkomulag sem þá var til umræðu. Það var út af fyrir sig góð hugmynd en leigan var óviðráðanleg. Það var ekki fyrir nokkurn mann að leigja í þessu kerfi. Ég held að flestallir hafi séð það fyrir rest. (Gripið fram í: Hver er ... núna?) Ég held að flestallir hafi séð fyrir rest að ekki var hægt að byggja á þessu kerfi.

Hvað gamla félagsíbúðakerfið varðar átti fólk auðvitað ekki að svindla á því en það er samt staðreynd málsins að kerfið var gengið sér til húðar. Kerfið nýttist ekki. Það gat ekki brugðist við vandanum og þeim óskum sem lágu fyrir hverju sinni. Þetta var allt eftir á þannig að kerfið sem slíkt var bara sprungið. Fyrir löngu hefði átt að vera búið að breyta þessu í það fyrirkomulag sem er núna. Þetta var eflaust ágætt þegar þetta kom á sínum tíma en þetta var löngu sprungið.