Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:42:16 (7302)

2002-04-09 15:42:16# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að nefndin kalli fyrir sig þá reiknimeistara sem bjuggu þessi módel til og þeir geti útskýrt fyrir nefndinni á hverju þeir byggja niðurstöðu sína.

Það er trú okkar og skoðun að vandinn verði leystur með þessu fimm ára plani, þ.e. vandinn vegna félagslegra íbúða. Auðvitað verða fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga stöðugt í skoðun á hverju einasta ári. Það er ýmislegt sem ríki og sveitarfélög eiga eftir að tala um, m.a. um hvernig þau eigi að skipta sameiginlegum verkefnum, húsaleigubótum og slíku á milli sín.

Varðandi íbúðirnar sem hafa verið innleystar þá hafa verið innleystar 45 á Blönduósi, 37 á Bolungarvík, í Borgarbyggð 24, Dalvík 58 og Fjarðabyggð 32, svo ég nefni nokkur dæmi af handahófi. Ég hef ekki töluna um Reykjavík og biðst afsökunar á því. Það vantar tölu úr Reykjavík, Mosfellsbæ, Skútustaðahreppi og Vík í Mýrdal. En á því blaði sem ég er með eru 1.055 íbúðir taldar upp, þ.e. innlausnaríbúðir sem komnar eru í leigu. Þetta eru sem sagt innlausnaríbúðir sem hafa einhvern tímann verið félagslegar eignaríbúðir en sveitarfélögin hafa leyst til sín. Ég skal gefa hv. þm. ljósrit af þessu blaði mínu.