Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:06:39 (7731)

2002-04-18 11:06:39# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og vekja eftirtekt á þeirri staðreynd að verð í Noregi og á Íslandi hefur hækkað umfram það sem hefur gerst í öðrum Evrópusambandslöndum. Hvaða skýringar sem kunna að vera á því eru þær vitaskuld ekki einhlítar en hér er aðeins um staðreyndir að ræða og það er ekki nokkur spurning að aðild þeirra ríkja að Evrópusambandinu sem miðað er við hefur þar veruleg áhrif. Hversu mikil áhrif nákvæmlega er kannski erfitt að segja um en þetta eru staðreyndir sem hér hafa verið dregnar fram.

Í sjálfu sér fannst mér dálítið broslegt að hlýða á hæstv. forsrh. fara út í þá talnaleikfimi að hugsanlega hefði kaupmáttur aukist meira hér en annars staðar. Það má líka velta því upp að vöruverð hefur verið mun hærra hér en annars staðar. Það má líka velta því upp að að meðaltali hafa laun verið lægri en í þeim samanburðarlöndum sem við berum okkur saman við þannig að ég gef lítið fyrir þá talnaleikfimi sem hæstv. forsrh. var með til að reyna að draga athyglina frá þeirri staðreynd að vöruverð á Íslandi og í Noregi, matvælaverð í þeim löndum er hærra en í Evrópusambandslöndunum.

Einnig er nauðsynlegt að vekja eftirtekt á því, virðulegi forseti, þegar menn hafa verið að reyna að koma fram með skýringar á þessu og menn tala um samþjöppun á matvælamarkaði að þau fyrirtæki sem eiga hvað stærstan hlut í matvælamarkaðnum eru þó fyrirtækin sem eru með lægst vöruverð og maður hefði haldið að ef þau fyrirtæki eru að ,,keyra upp vöruverðið`` sé að myndast a.m.k. eitthvert svigrúm fyrir önnur fyrirtæki til að koma inn á þennan markað og stinga sér þá inn í það svigrúm til að ná í ákveðna markaðshlutdeild.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta þurfi að ræða á miklu breiðari grunni, en hins vegar er sú staðreynd ljós að Ísland og Noregur eru með hærra matvöruverð en önnur Evrópusambandsríki.