Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:34:25 (8065)

2002-04-20 19:34:25# 127. lþ. 124.63 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:34]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er klukkan orðin rúmlega hálfátta að kvöldi og ekki hefur enn þá verið gefið matarhlé. Það stóð svoleiðis á fyrir þeim sem hér stendur að hann notaði þó nokkurn hluta af morgninum, reyndar líka allt gærkvöldið fram til klukkan tvö í nótt við að ganga frá nefndarálitum og þar að auki tímann frá hálfeitt til klukkan að verða rúmlega hálftvö við að ganga frá nefndarálitum og mætti þess vegna, því miður, aðeins of seint í atkvæðagreiðslu. Ég skrapp að vísu niður í dag og fékk mér kaffi og eina kökusneið. En ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að nú er ég orðinn ansi svangur og þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi gefa okkur stutt matarhlé, þótt ekki væri nema í korter. Það dugar mér til að setja í mig, ég veit ekki með aðra þingmenn. Ég vil fara fram á það í allri vinsemd við hæstv. forseta að við fáum örstutt matarhlé, þeir þingmenn sem erum að sinna þessari umræðu sem mér finnst skipta mjög miklu máli. Ég lít svo á að hér sé að fara fram stefnumótun til nokkurrar framtíðar um stjórn fiskveiða og hef ekki hugsað mér að láta hana fram hjá mér fara án þess að tjá allar skoðanir mínar um það í hvaða framtíð við erum að fara. Þess vegna fer ég fram á þetta, herra forseti.

(Forseti (HBl): Fundinum verður frestað til klukkan átta.)