Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:41:12 (8120)

2002-04-23 10:41:12# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., hefur mælt fyrir áliti nefndarinnar. Mig langar til að spyrja hann, af því að hann er í raun í hlutverki alvörufjárfestis, hann er að fjárfesta fyrir hönd íslensku þjóðarinnar í fyrirtæki upp á 20 milljarða eða taka áhættu í því, hvort nefndin hafi þá unnið samkvæmt þeim reglum sem menn tileinka sér á verðbréfamarkaði við slíkar fjárfestingar, þ.e. að skoða viðskiptaáætlun með miklum grandvarleik með sérfræðingum á því sviði sem um er að ræða, þ.e. lyfjaþróun sem ég efast um að nokkur Íslendingur þekki nema kannski eitt lítið fyrirtæki, hvort nefndin hafi með sínum sérfræðingum unnið að mati á viðskiptaáætlun, reiknað út gjaldþrotalíkur fyrirtækisins og klárað þetta allt saman á sex dögum. Þvílík snilld.

Hjá stórum fyrirtækjum sem gera þetta alla daga þykir a.m.k. eðlilegt að hafa sex vikur í slíka skoðun á fjárfestingu og stundum upp í sex mánuði og alveg sérstaklega þegar um er að ræða rekstur sem er eins áhættusamur og lyfjaþróun. Og alveg sérstaklega þegar menn eru að fara út í eitthvað sem þeir ekki kunna þurfa þeir að skoða málið vel. Og ég ætla að spyrja: Hvernig stendur á því að hv. efh.- og viðskn. gat klárað þvílíkt stórt og viðamikið verkefni á sex dögum?