Lokafjárlög 1998

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:55:31 (8188)

2002-04-24 11:55:31# 127. lþ. 127.13 fundur 666. mál: #A lokafjárlög 1998# frv. 100/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:55]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég hafði reiknað með því varðandi lokafjárlög áranna 1998 og 1999 að við gætum rætt um málin saman. En þar sem það er ekki gert er rétt að geta aðeins um fyrra málið, lokafjárlög 1998. Síðan mun ég, virðulegur forseti, koma aftur til að ræða þessi mál í heild sinni.

Það sem um er að ræða er að verið er að reyna að koma af lokafjárlögum vegna 1998 sem fjárln. er sammála um að þurfi að ljúka. Þetta er þriðja atlagan sem við gerum að því að ljúka lokafjárlögum. Þar var um skekkju að ræða, ákveðna skekkju sem nemur 40 milljónum. Menn hafa komist að samkomulagi og við munum ekki gera athugasemd við að leiðréttingin fari fram með lokafjárlögum ársins 2001.

Við ætlum ekki að gera ágreining um málið á neinn hátt en munum að sjálfsögðu sitja hjá vegna þess að við höfum ekki haft beina aðkomu að þessum lagfæringum og alls ekki að þeim útgjaldaákvörðunum sem lúta að fjárlögunum 1998.

En, virðulegur forseti, eins og ég sagði áður mun ég þegar seinna málið kemur á dagskrá flytja ræðu um bæði þessi mál.