Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:25:37 (8535)

2002-04-30 12:25:37# 127. lþ. 134.27 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál. 26/127, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:25]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Landgræðslan er mjög mikilvæg og í samfélaginu er eining um að land okkar eigi að vera vel búið gróðri og að okkur beri að vinna gegn gróðureyðingu með því að stunda landgræðslu og varnir gegn landbroti og öðru því sem skaðar gróður landsins. Þess vegna er starfsemi Landgræðslunnar mjög fjölþætt og víðfeðm og í raun og veru alltaf að breytast.

Það er ánægjulegt að sjá að lögð er aukin áhersla á fræðsluþætti og, eins og fram hefur komið, að heimamenn í hverju héraði, félagasamtök og aðrir aðilar, taki aukinn þátt í landgræðslunni. Allt þetta eykur líka áhuga manna á því að taka þátt í landgræðslunni og að við tökum höndum saman í þessu máli.

Við erum að tala um að að 6,5 milljarðar fari á þessu tímabili, 2003--2014, í verkefnin. Við styðjum þetta og hér er náttúrlega líka verið að fylgja eftir lögum um að hafa eigi landgræðsluáætlanir. Það er von mín, herra forseti, að þetta eigi eftir að skila góðum árangri, bæði hvað varðar uppgræðsluverkefni sem eru í gangi, verkefnið ,,Bændur græða landið`` og það sem fer í landbótasjóð, fyrirhleðslur og annað.