Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:09:55 (8549)

2002-04-30 13:09:55# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:09]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að fram hafi komið í máli mínu að það er í sjálfu sér ekkert í þessu frv. sem leiðir þá gjörð sem hér hefur farið fram. Hins vegar er þetta gert í tilefni af því að frv. hafði verið lagt fram. Það hafði varla verið lagt fram þegar þessi frægi fundur var haldinn þar sem þessi samþykkt var knúin fram. Ég tel að bændur hafi kannski ekki alveg áttað sig á hvað þarna var á ferðinni og veit það reyndar því að margir þeirra hafa sagt mér að þeir hafi ekki áttað sig á hvað hér var á ferðinni, þ.e. að verið væri að fara inn í beingreiðslur sem var búið að reikna út vísindalega af þessari nefnd af mikilli nákvæmni að væri einmitt það sem garðyrkjubændur þyrftu að fá til að geta staðið þennan slag af sér. Þarna er búið að fara inn í þá upphæð að ég vil kalla á skítugum skónum. Það má kalla þetta samning við garðyrkjubændur eða hvað sem er, en það var aldrei til þess ætlast þegar lagafrv. var samið, hvað þá þegar það var lagt fram, fyrir því hef ég fulla vissu, að svona yrði farið að.