Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:13:45 (8576)

2002-04-30 15:13:45# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var bara ágætt, mér er ákveðinn léttir að því að hv. þm. viðurkennir það nú hér að hafa tekið þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar. Að vísu vissu allir að hann var góður og dyggur alþýðubandalagsmaður en hann tók þátt í þessu prófkjöri engu að síður. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. hefði tekið sæti á framboðslistanum ef hann hefði náð 1. eða 2. sæti eins og hann stefndi að eða hvort hann hefði hoppað úr því sæti yfir í framboð fyrir Vinstri græna þegar búið var að stofna þann flokk. Var þátttakan í prófkjöri Samfylkingarinnar bara upp á grín eða hvað meinti hv. þm. eiginlega með þessu? Ég vildi gjarnan fá skoðanir hans á því.

Síðan vildi ég líka fá útskýringu frá hv. þm. á því hvort hann sé raunverulega á móti því að nota þessa peninga sem þarna koma, mjög óvænt, upp í hendurnar á okkur, Skagfirðingum, og fara með þá norður í land og gera eitthvað fyrir þá núna. Er hv. þm. sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að þessir peningar hefðu átt að fara í ríkissjóð og allt sem snýr að Skagafirði ætti að bíða þangað til við næstu fjárlagagerð? (Gripið fram í.) Ég veit, hv. þingmaður, að Vinstri grænir eru á móti því að selja. En þegar fyrir liggur að það er tapað og peningarnir munu koma í ríkissjóð á þessu ári, þegar það liggur fyrir, má ekki nýta þessa peninga til hagsmuna fyrir Skagfirðinga núna? (SJS: Við erum enn að reyna að snúa þér.)