Upplýsingar um þingmál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:35:43 (8603)

2002-05-02 10:35:43# 127. lþ. 135.91 fundur 569#B upplýsingar um þingmál# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir undrun minni á því að ítrekað eru tekin mál til umræðu í upphafi fundar undir liðnum um störf þingsins sem eru á dagskrá þingsins. Ég verð að fá að spyrja hæstv. forseta með hvaða rökstuðningi hann heimilar umræðu af þessu tagi, þ.e. efnislega umræðu um mál sem er á dagskrá fundarins. (ÖJ: Á að banna fólki að tala?) Það er leyfilegt að tala um málin sem eru á dagskrá þegar þau koma fyrir. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það eru engin bönd á mönnum í þeim efnum þannig að ég lýsi yfir undrun minni á þessari framkomu hv. þm. Ögmundar Jónassonar.

Þetta er í annað skipti á tveimur dögum þar sem hann hefur þingfund á því að taka fyrir til efnislegrar umræðu mál sem er á dagskrá fundarins. Er þetta fjórða umræða um málið eða fimmta umræða eða hvers konar skrípaleikur er þetta, herra forseti? Af hverju getur hv. þm. ekki tekið málið fyrir, rætt sín sjónarmið og borið fram spurningar sínar þegar það er á dagskrá og til umræðu? Þannig eru þingsköpin, herra forseti. Ég veit ekki til þess að þeim hafi verið breytt að þessu leytinu til.

Herra forseti. Ég spyr þá tvo hv. þm. sem hér hafa komið upp og eru báðir í efh.- og viðskn. hvort þeir hafi borið þá ósk fram við formann nefndarinnar að nefndin komi saman til að fjalla um spurningar þeirra. Ég veit ekki til þess að formaður nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, hafi nokkurn tíma neitað mönnum um slíkt. Ég veit ekki annað en hann hafi tekið vel í að athuga slíka beiðni ef hún hefur komið fram á milli 2. og 3. umr. Ég spyr hv. þingmenn um þetta þannig að þeir upplýsi þingið um hvort þeir hafi sýnt formanni nefndarinnar þá kurteisi að tala við hann og bera fram ósk um þetta því það er í hendi hans að boða nefndina saman ef hann telur ástæðu til.