Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 15:01:42 (8821)

2002-05-03 15:01:42# 127. lþ. 137.11 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Allt ber að sama brunni. Allt fer á sömu lund. Stefnan er óbreytt, samdráttarstaðirnir visna, markaðsstaðirnir eflast. Þetta segi ég með vísan til skýrslu Þjóðhagsstofnunar um stjórn fiskveiða.

Mannleg stjórn fiskveiða við Ísland er á villigötum. Menn sitja fastir í hinu mannlega þorskaneti, þ.e. fiskveiðistjórnarkerfinu sem er orðið afskræmi og óhugnaður ógeðfelldrar gróðahyggju sem vex eins og slímug forynja og bólgnar út á einum stað um leið og reynt er að setja á hana bönd á öðrum.

Herra forseti. Ég hef áður sagt og segi enn: Fiskveiðistjórnarkerfið felur í sér allt sem er andstætt þeim gildum sanngirni og réttlætis sem ég þekki. Því hafna ég þessu máli.