Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:09:13 (121)

2001-10-04 16:09:13# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur misskilið eitthvað orð mín eða ekki hlustað nógu vel ef hann hefur heyrt mig segja það að þessi flutningur verkefnis frá Byggðastofnun hafi verið vegna þess að stofnunin var flutt út á land. Ég sagði hins vegar og mér finnst það að þegar stofnun er flutt út á land þá eigi að efla hana með sama hætti og þegar hæstv. umhvrh. beitti sér fyrir því að Landmælingar voru fluttar út á land. Það tókst einstaklega vel vegna þess að ráðuneytið stóð á bak við þann flutning og studdi og efldi fyrirtækið. Ég hef verið þeirrar skoðunar að slíkt ætti að gera með Byggðastofnun líka og veit að það verður gert. En ég hef aðeins lýst óánægju minni með það að þetta eina verkefni skuli eiga að fjármagnast af þessum peningum og vinnast inni í ráðuneyti. Ég taldi að það ætti frekar að vinnast í stofnuninni, Byggðastofnun á Sauðárkróki.