Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:33:13 (127)

2001-10-04 16:33:13# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. hafi vitað hvað hann ætlaði að leggja fram sjálfur í dálítinn tíma. En þær upplýsingar getur hann ekki gefið upp, hann má ekki gefa þær upp. Hann þarf að halda þeim mjög leyndum vegna þess, eins og kemur í ljós núna að verðbréfamarkaðurinn tók á skrið. Það er ekki ráðlegt að dreifa slíkum upplýsingum, sem geta haft mikil fjárhagsleg áhrif, nema til mjög þröngs hóps. Ég vissi þetta ekki fyrr en eftir klukkan fjögur í gær og það vissi þetta enginn í mínum flokki eftir því sem ég best veit fyrr en eftir klukkan fjögur. Og það hefur örugglega verið með ráðum gert.

Ég reikna með því að fjmrh. hafi vitað þetta sjálfur og vegna þess arna hafi hann með sjálfum sér sett örlítið aðrar áherslur í fjárlagafrv. en Þjóðhagsstofnun.