Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:22:01 (639)

2001-10-16 18:22:01# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Kristjáns Pálssonar, þegar hann var að tala um gamla útgerðarmenn, vil ég taka sérstaklega fram að ég ber mikla virðingu fyrir þeim útgerðarmönnum og sérstaklega þeim sem stofnuðu til útgerða eins og hann var að lýsa hér áðan og sem glímdu við Ægi og þróuðu sínar útgerðir. Það er ekki þeim að kenna hvernig við höfum misst stjórn á fiskveiðikerfinu okkar. Og það er ekki rétt að áfellast eigendur útgerða fyrir það hvernig fyrirkomulagið er í dag. Það er mjög slæmt og það hefur leitt til mikilla deilna, svo mikilla að hæstv. forsrh. sá sig tilneyddan að gefa kosningaloforð um að skipuð yrði sérstök sáttanefnd um sjávarútvegsmálin í landinu. Sú sáttanefnd var skipuð eftir síðustu kosningar. En hún hefur ekki skilað neinu sáttaáliti vegna þess að það sem hún er að skila er einfaldlega það sama og er við lýði í dag, nema aðeins er verið að tala um eitthvert veiðileyfagjald eða auðlindagjald, lítils háttar upphæðir miðað við það sem ætti að vera. Þetta vildi ég segja núna.