Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:36:38 (1086)

2001-11-02 11:36:38# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef greinilega eitthvað misskilið spurningu hv. þm. hvað varðaði nýja úthlutun. Það er auðvitað rétt hjá honum að verið er að úthluta kvóta af keilu og löngu í fyrsta skipti á þessu fiskveiðiári. (GAK: Og skötusel.) Og reyndar skötusel líka, þakka þér fyrir, hv. þm. En samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er miðað við þrjú síðastliðin fiskveiðiár þegar úthlutað er kvóta í nýjum tegundum. Þar af leiðandi verður alltaf miðað við önnur ár en gert var upphaflega þegar kvótakerfið var fyrst tekið upp árið 1984. Þannig hefur það alltaf verið þegar nýjar tegundir hafa verið teknar inn í kvóta, að miðað er við þrjú síðustu árin. Þessar dagsetningar sem hann tiltók eru þær sem hafa verið notaðar undanfarin ár og það hefur ekki verið miðað við fiskveiðiárið því að þetta hefur þurft að vera frágengið áður en fiskveiðiárið hófst og ætti út af fyrir sig ekki að skipta höfuðmáli, a.m.k. ekki hjá þeim sem hafa verið að stunda þessar veiðar undanfarin ár, og við byggjum auðvitað alla okkar úthlutun á veiðireynslunni.

Hvað varðar verðmæti þessa úthlutaða kvóta hef ég ekki lagt neitt mat á það, ekki reiknað það út, enda er vandséð hvernig á að meta verðmæti kvóta. Mér finnst oft og tíðum að þær tölur sem menn eru með á lofti séu ekki allar raunhæfar. Ég verð því að láta hv. þm. það eftir að meta verðmæti þessa kvóta enda held ég að hann sé nú almennt talinn tölugleggri maður en ég.