Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:40:00 (1131)

2001-11-02 15:40:00# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lýsi bara ánægju minni með þetta andsvar. Það er einmitt í þeim anda sem ég vildi gjarnan fá að heyra, að menn mundu taka á þessum gleymda flota. Menn hafa ekki leiðrétt þau vandamál sem þar eru, og þau eru töluvert mörg. Það þarf kannski ekkert ofboðslega mikið til þess að bæta verulega úr. Ég kann hv. þm., Guðjóni Arnari Kristjánssyni og þeim sem með honum eru í þessum málflutningi, hinar bestu þakkir. Ég hefði gjarnan viljað taka þátt í þessu frv. og lýsi bara hér með ánægju með viljann til þess að bæta úr hjá þeim hópum sem að þessu standa. Ég veit að menn gera sér grein fyrir þessu enda er þetta ekki bundið við einstaka staði. Þetta er bundið við ýmsa staði allt í kringum landið, og einstaklinga sem ná ekki að brúa bilið nema með því, eins og hér kom fram áðan, að leigja til sín óhemju mikinn kvóta til þess að tengja saman a.m.k. atvinnuna allt árið fyrir þá menn sem þeir eru með í vinnu hjá sér, og ég hygg að 40 tonn sé ágæt viðmiðun. Þurfi menn að leigja til sín meira en það þarf að skoða stöðu þeirra.