Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:07:52 (1138)

2001-11-02 16:07:52# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. sagði um að afstaða manna hefði breyst þegar þeir fengu úthlutun --- auðvitað er eðlilegt að menn vilji verja rétt sinn, það gera allir. Það er ekki fyrr en við förum inn í sósíalískt kerfi sem menn átta sig á því að þeir eiga ekki neitt.

Í þessu tilfelli átta menn sig á því að þeir eiga eitthvað, og í því kerfi sem við erum að byggja upp núna í kringum smábátana hafa þeir þann möguleika að geta tryggt betur afkomu sína með því að leigja eða kaupa frá öðrum. Þeir geta leigt meira að segja úr stóra kerfinu. Þeir geta skipt á aflaheimildum, þeir geta sérhæft sig og ég þykist vita að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi séð hvernig framsalið hefur eflt nýsköpun í vinnslu sjávarafurða, hvernig t.d. kolavinnslur hafa risið upp. Við höfum séð aðila sem eru meira að segja að sérhæfa sig í alls konar flúrum, í tindabikkju, meira að segja í skötusel og alls konar aukategundum sem enginn lét sér detta í hug að nýta áður. Ég þykist hafa fylgst með útgerð lengi og held að eftir að kvótakerfið var sett á hafi orðið alger bylting í meðferð afla og fjölbreytileika í vinnsluaðferðum um allt land.

Nýliðunin verður alltaf vandamál þegar um takmarkaða sókn er að ræða og menn þurfa að kaupa sig inn í kerfið. Ég hef séð það á þessum árum að menn hafa bara plumað sig ágætlega, þeir sem hafa farið af stað, en það kostar auðvitað peninga og það hefur alltaf kostað peninga að fara í útgerð. Það er ekkert nýtt.