Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:18:22 (1144)

2001-11-02 16:18:22# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er engin miðstýring. Menn eru að fá úthlutað veiðiheimildum eftir reynslu sinni. Ég vona að fólk skilji það sem það les og stendur hér svart á hvítu.

Ég vil bara minna hv. þm. á það, af því að hann taldi að þetta væri engin sátt, að auðvitað verður sennilega aldrei nein sátt, endanleg sátt þannig að allir verði 100% ánægðir þegar verið er að stýra veiðum eins og þarf að gera vegna þess að það er ofveiði í stofnunum. Ef menn fá ekki að veiða frjálst þá virðist andrúmsloftið vera þannig að menn verða aldrei sáttir.

Ég ætla einnig að minna hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á að listar gengu um landið í sumar --- ef hv. þm. hefur tíma til að hlusta --- það gengu listar... (Forseti hringir). Ég ætlaði að reyna, herra forseti, að segja hv. þm. að listar gengu frá smábátamönnum sem voru afhentir hæstv. sjútvrh. (Forseti hringir.) þar sem þeir báðu um að endurvakin yrði sú tillaga sem var hér í vor um að taka þá viðbót inn í kvótakerfið sem þá var til umræðu.