Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:49:05 (1148)

2001-11-02 16:49:05# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég notaði þau orð sem hann nefndi um umræðu ýmissa hv. þm. um gleymda flotann og um smærri aflamarksskip. Ég hef ekki hugsað mér að tilgreina fáeina þingmenn en þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir. Þeir koma úr ýmsum kjördæmum, herra forseti. Við skulum bara vera klár á því.

En ég vil taka fram vegna þess sem hv. þm. nefndi um hugsanlega frjálsar veiðar smábáta að ég mundi ekki fylgja því. Ég tel mig hafa mjög góð rök fyrir þeirri skoðun minni að ég tel að með því móti værum við að fara inn á sambærilegar brautir við þær sem ég tel að við förum út úr með þessu frv. Við höfum komist úr því fari með samþykkt laganna um krókaaflamark.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að staða frystitogara snerti þetta mál með nokkrum hætti. Ég sé engin tengsl á milli frystitogara og smábáta. Ég sé hins vegar alveg rakin tengsl og líklegan samanburð á milli stöðu krókabátanna, þeirra möguleika sem þeir hafa haft undanfarin ár, þeirra aflaheimilda sem þeir sem mestu heimildirnar munu hafa að þessum aðgerðum loknum og hinna smæstu báta í aflamarkskerfinu. Ég held að verði mjög auðvelt að rekja þau tengsl.