Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:50:35 (1424)

2001-11-12 15:50:35# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það fór ekki hjá því að hæstv. landbrh. flæktist sjálfur í þeim furðulegu útúrsnúningum sem hann bar hér á borð til að afsaka hið snautlega svar eða eigum við að kalla það afsvar sem hann hafði gefið hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur við einföldum spurningum sem fyrir hann voru bornar. Ég legg til að hæstv. ráðherra reyni aftur að taka til við að sinna skyldum sínum, þeim sem á hann eru lagðar samkvæmt lögum, og svari nú fyrirspurn hv. þm. undanbragðalaust.

Ég verð að segja að það sem var t.d. borið hér á borð, að ekki lægju fyrir upplýsingar um það í hv. ráðuneyti hvaða jarðir hafa verið seldar á undanförnum fimm árum, finnst mér svo furðuleg röksemd að ef satt reynist eigi bara að leysa upp ráðuneytið og taka það í sérstaka skoðun. (Gripið fram í.) Menn hljóta að hafa einhverjar tiltækar upplýsingar um þær stjórnvaldsaðgerðir sem hafa verið framkvæmdar á undanförnum fimm árum. Ég trúi ekki öðru.