Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:34:13 (2121)

2001-11-28 14:34:13# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Fákeppni er mikil hér á landi og hefur komið í ljós að matvöruverð hefur hækkað úr hófi. En ég vil bara koma því að að sá sem framleiðir vöruna hefur fengið æ minna í sinn skerf af þeirri köku.

Það var athyglisvert þegar manneldisráð gerði úttekt um daginn á hollustukörfu og óhollustukörfu að hollustukarfan kom mun betur út. En þar sem hv. fyrirspyrjandi var að bera Ísland saman við Rússland, þ.e. að fólk hefði hér ekki til hnífs og skeiðar, finnst mér alveg fráleitt. Ísland er í þeirri stöðu að vera fremst meðal þjóða hvað lífskjör snertir. Mér finnst alveg fáheyrt að bera okkur saman við Rússland.