Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:06:22 (2234)

2001-11-29 17:06:22# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um þetta. Fulltrúar Evrópusambandsins hafa látið þau orð falla að þeim finnist eðlilegt að Evrópusambandið eigi fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, styrkleiki þeirra sé slíkur að þar ættu sameinuð ríki eða Evrópusambandið sem slíkt að eiga sinn eigin fulltrúa.

Það er svo aftur annað mál hvernig það þróast. Ég verð að segja, herra forseti, að í mínum huga er það kannski ekki alveg sama breyting, annars vegar á okkar málum innan EES með þeirri breytingu sem er að verða innan Evrópusambandsins og þeirri sem það mun hafa á þennan samning og svo hins vegar varnarmálin sem eru sannarlega að verða flóknari en áður var.

Eftir sem áður held ég að þegar kemur að því að leita leiða til að halda okkur sem næst þeirri ákvarðanatöku sem við vildum alltaf hafa með Evrópusambandinu eða Evrópuríkjunum innan NATO munum við reyna að stuðla að því að Vestur-Evrópusambandið sem slíkt verði aðili eða hlutaaðili að Evrópuþinginu. Það eru margir innan Vestur-Evrópusambandsins sem hafa áhuga á því að þessi þáttur öryggismála Evrópu verði ekki tvískiptur eins og hann er í dag heldur verði hann í einu lagi innan Evrópuþingsins í sérstakri deild eða með öðrum sambærilegum hætti.