Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:58:40 (2249)

2001-11-29 17:58:40# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði athugasemdir við það áðan að Bandaríkjamenn gerðu tilraun til þess að verða alheimslögregla. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. hefur látið þá skoðun sína í ljósi að Bandaríkjamenn séu að skipta sér of mikið af því sem er að gerast í heiminum.

Ég spyr hv. þm. hvernig hann teldi að útlits væri í dag ef Bandaríkjamenn hefðu ekki tekið af skarið varðandi hryðjuverkamenn sem hafa átt skjól í Afganistan. Telur hann að Sameinuðu þjóðirnar hefðu getað leyst það mál? Ég sé fyrir mér að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Sameinuðu þjóðirnar sjálfar hefðu getað rifist um það mánuðum saman og jafnvel árum saman til hvaða aðgerða ætti að grípa. Því miður hefur það nú verið þannig að Sameinuðu þjóðirnar, þegar þær loksins hafa gripið inn í, hafa ekki náð nægum árangri.