Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:44:42 (2670)

2001-12-07 13:44:42# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það var afar óvenjuleg ræða sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður fjárln., flutti hér áðan. Hann kvartaði yfir því að tillögur 1. minni hluta fjárln. væru ekki tilbúnar og ekki búið að dreifa þeim í sal. Það vill að vísu svo til að það er búið að dreifa þeim nú í millitíðinni og ástæðan var auðvitað sú að þær voru í vinnslu hjá nefndasviði sem hefur verið önnum kafið, m.a. vegna þess að margar tillögur hafa komið fram og mikil vinna hefur lent á þessu ágæta starfsfólki, auðvitað fyrst og fremst vegna þess að tillögur meiri hluta fjárln. hafa verið svo seint á ferðinni.

Það má segja að það hafi allt haldið hér gagnvart því að taka þessi mál fyrir samkvæmt dagskrá þingsins. 3. umr. fjárlaga fer fram, fyrst og fremst að ég tel vegna þess að minni hluti fjárln. hefur verið liðlegur í störfum sínum og ekki verið með háværar ásakanir eða reynt að tefja störf í nefndinni heldur reynt að flýta fyrir þeim.

Þess vegna verð ég að segja það, herra forseti, að það eru nokkuð kaldar kveðjur sem formaður fjárln. sendir til minni hluta nefndarinnar. Ég fullyrði, herra forseti, að þessar ásakanir eru algjörlega rakalausar og eiga ekki við neitt að styðjast í raunveruleikanum.