Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:53:10 (2742)

2001-12-07 18:53:10# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar reiknilíkan framhaldsskólanna sem hv. þm. Einari Má Sigurðssyni varð tíðrætt um í ræðu sinni var það rétt sem fram kom í máli hans að það var ákveðin tilraun til að byrja með, þ.e. að útdeila með þessum hætti fjármunum til framhaldsskólanna. En ég vil að gefnu tilefni taka fram að í flestum tilfellum hefur þetta tekist vel, ekki í öllum tilfellum en flestum.

Nokkrir framhaldsskólar koma illa út úr þessu úthlutunarkerfi. Það eru nánar tiltekið verknámsskólar með litlar bekkjardeildir. Einn skóli, aðeins einn, kemur verulega illa út og hann gjarnan nefndur sem dæmi en það er Menntaskólinn í Kópavogi sem er með sérhæfðar matvælabrautir á sínum snærum. Eins og hv. 4. þm. Austurl. veit er verið að skoða mál hans sérstaklega.

Eins hefur komið fram í þingsölum í máli hæstv. menntmrh. að verið er að endurskoða umrætt reiknilíkan, sérstaklega með þau atriði í huga sem koma neikvætt út fyrir framhaldsskólana. Vonandi lýkur þeirri vinnu sem fyrst með farsælli niðurstöðu fyrir alla framhaldsskóla í landinu.