Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:54:31 (2743)

2001-12-07 18:54:31# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er því miður sami söngur og við höfum allt of oft heyrt og manni bregður eiginlega við að fólk skuli enn trúa þessum ósköpum. Eins og ég sagði í ræðu minni er því miður búið að segja þetta í þrjú, fjögur, fimm eða sex ár að nú sé verið að skoða þetta. Grunnur þessa reiknilíkans er frá 1993. Skólakerfið, ég tala nú ekki um framhaldsskólana, hefur gjörbreyst síðan þá. Þróunin er slík. Þannig er rangt, og ég mótmæli því, að nær allir, allir nema einn framhaldsskóli, hafi komið vel út úr reiknilíkaninu. Það er víðs fjarri veruleikanum. Því miður.

Það sem hv. þm. sagði, að það væru helst litlir verkmenntaskólar sem stæðu illa í líkaninu, er einn reginmisskilningur og líklega einhverjar gamlar upplýsingar. Hið eina sem þó hefur verið gert í reiknilíkaninu frá 1993 er að að frumkvæði fjárln. var einmitt tekið á málefnum lítilla verkmenntaskóla. Þeir standa þannig hvað skást í kerfinu.

Það sem hins vegar kemur út úr þeirri endurskoðun sem í raun er lokið með skýrslugerð sameiginlegs starfshóps skólameistara og ráðuneytismanna er að það séu verknámsskólar, stórir og meðalstórir, og síðan heimavistarskólar sem koma hvað verst út. Þeir sem koma hins vegar best út eru stórir bóknámsskólar. Meginvandi kerfisins eða reiknilíkansins er að ná utan um hina fjölbreyttu flóru framhaldsskólanna. Það verður ekki gert með því að vera ætíð að skoða og aldrei að gera neitt.

Nú er komið að því, og þó fyrr hefði verið, að leggja fram raunhæfar tillögur og taka á þeim vanda sem um er að ræða í framhaldsskólakerfinu en segja ekki ætíð, eins og hæstv. menntmrh. er því miður búinn að gera allt of lengi, að verið sé að skoða einstaka skóla, þetta sé svo gott víðast hvar að við þurfum að velta fyrir okkur sérstaklega einstökum skólum. Það liggja fyrir skýrslur um að skoða þurfi miklu meira en einstaka skóla.