2001-12-11 16:23:36# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það skiptir auðvitað mestu að hin nýja áætlun verði sem allra best unnin og skili okkur meiri árangri en sú áætlun sem nú er að renna sitt skeið. Megingalli þeirrar áætlunar var að þar var allt of mikil almenn markmiðslýsing og skorti að settar væru nákvæmar framkvæmdaáætlanir og ákveðið hver ætti að gera hvað og hvenær. Við vonum svo sannarlega að við fáum betri áætlun fyrir næstu tvö ár þannig að árangur verði líklega betri.

Hins vegar er nauðsynlegt að vekja athygli á því að það var ekki bara svo að ekki er farið eftir þeim ágæta texta sem ég las áðan úr fjárlagafrv. heldur voru einnig mjög víða samviskusamlega teknar út þær upphæðir sem voru tengdar gömlu áætluninni. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra nái árangri, ekki bara í að ná þeim upphæðum aftur inn, hvaða leiðir sem farnar verða til þess, heldur verði einnig tryggt það fjármagn sem þarf til að framvæma hina nýju áætlun.