Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 9  —  9. mál.
Tillaga til þingsályktunarum áfangaskýrslu frá verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kalla eftir áfangaskýrslu frá verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem helstu virkjunarkostir sem taka þarf ákvarðanir um á næstu missirum verði metnir.
     Stjórnvöld taki mið af niðurstöðum áfangaskýrslunnar við val nýrra virkjunarkosta þar til rammaáætlunin hefur tekið gildi.

Greinargerð.


    Í febrúar 1997 tók ríkisstjórnin ákvörðun um að iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, léti gera rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem skyldi lokið fyrir árið 2000. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti og vera grundvöllur að forgangsröðun þeirra. Á fyrri hluta ársins 1999 var unnið að undirbúningi verkefnisins sem fékk kjörorðið Maður – nýting – náttúra; rammaáætlun um nýtingu jarðvarma.
    Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur á 126. þingi um hvernig vinnu við gerð rammaáætlunar miðaði í upphafi árs 2001 kom fram að verkefnastjórnin hefði sett sér það markmið að í lok árs 2002 mundi hún skila fyrsta áfanga mats á allt að 25 virkjunarhugmyndum af hugsanlegum 100 sem komið gætu til umfjöllunar í rammaáætlun.
    Verður að telja það afar bagalegt að ekki sé að vænta mats frá verkefnastjórninni fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2002 þar sem taka þarf mikilvægar ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir fyrir þann tíma. Er því með tillögu þessari lagt til að kallað verði eftir áfangaskýrslu frá verkefnastjórninni. Þar verði þeir virkjunarkostir metnir sem að mati iðnaðarráðherra þarf nauðsynlega að taka ákvarðanir um á því tímabili sem líður þar til fyrsti áfangi rammaáætlunar liggur fyrir. Slík skýrsla yrði forsenda ákvarðana stjórnvalda við val nýrra virkjunarkosta auk þess sem hún gæti komið í veg fyrir hatrammar deilur um virkjunarkosti.