Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 10  —  10. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Iðgjald til sjóðsins skal nema 12% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 8%.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna mynda tvö prósentustig af greiðslu launagreiðanda ekki réttindi til lífeyris fyrr en tryggingafræðileg úttekt sýnir að Lífeyrissjóður sjómanna getur staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var flutt á 126. löggjafarþingi en varð eigi útrætt og er því endurflutt.
    Um alllangt skeið hafa eignir Lífeyrissjóðs sjómanna ekki staðið undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Stjórn sjóðsins hefur leitað leiða til að minnka muninn milli eigna hans og skuldbindinga. Í nokkur skipti hafa verið gerðar lagabreytingar sem allar hafa haft í för með sér mikla skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna. Þrátt fyrir þetta vantar enn um 4.494 millj. kr. eða 6% til þess að eignir sjóðsins standi undir skuldbindingum hans samkvæmt tryggingafræðilegu mati miðað við árslok 2000, en halli sjóðsins árið á undan, þ.e. 1999, var 2.185 millj. kr. eða um 3,2%. Með viðvarandi halla sjóðsins yfir 5% verður lögum samkvæmt að grípa til ráðstafana sem felast í enn frekari lækkun réttinda sjóðfélaga, ef engar viðbótargreiðslur koma til.
    Með því að hækka lögbundið framlag launagreiðanda í Lífeyrissjóð sjómanna um tvö prósentustig, án þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist, er stigið mikilvægt skref í þá átt að brúa það sem upp á vantar til að sjóðurinn eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum. Auk þess er það réttlætismál að launagreiðendur leggi fram sinn skerf og taki þátt í því að koma sjóðnum á réttan kjöl. Til þess hníga ýmis rök, svo sem afar háar greiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna vegna örorkulífeyris sem er afleiðing af því hversu hættulegt sjómannsstarfið er. Á undanförnum árum hefur örorkulífeyrir verið nálægt 45% af heildarlífeyrisgreiðslum Lífeyrissjóðs sjómanna. Sambærilegt hlutfall hjá öðrum lífeyrissjóðum er mun lægra, í sumum tilfellum allt niður í 20%.
    Í frumvarpinu er lagt til að þessi hækkun á hlutfallslegri greiðslu launagreiðanda myndi ekki aukinn rétt til lífeyris fyrr en tryggingafræðileg úttekt sýnir að sjóðurinn getur staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum. Þess í stað verði auknar greiðslur í sjóðinn af þessum toga notaðar til þess að brúa það sem upp á vantar hvað snertir skuldbindingar sjóðsins og framtíðarhagur sjóðfélaga þannig bættur. Jafnframt munu auknar greiðslur launagreiðenda verða til þess að stöðva enn frekari skerðingar á réttindum núverandi lífeyrisþega í Lífeyrissjóði sjómanna.