Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 26  —  26. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Flm.: Jón Bjarnason.



1. gr.

    Við 43. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þegar svo ber undir skal fjármálaráðherra leggja slíkt frumvarp fyrir Alþingi bæði þegar er það kemur saman að hausti og áður en því er slitið að vori.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð þá eigi rætt og er nú endurflutt óbreytt.
    Í lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er gert ráð fyrir því að með frumvarpi til fjáraukalaga sé leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir ef nauðsyn krefur. Meginákvæði laganna hvað þetta varðar kveða á um að heimilda til slíkra útgjalda skuli leitað fyrir fram, þ.e. áður en skuldbindandi ákvörðun er tekin, nema í undantekningartilvikum, sbr. 33. gr. og 1. mgr. 44. gr. laganna.
    Hvergi í lögunum er kveðið á um hversu oft eða hvenær skuli leggja fram frumvarp til fjáraukalaga. Þó segir í 44. gr. að heimilda fyrir ófyrirséðum fjárráðstöfunum sem grípa þurfi til eftir samþykkt fjáraukalaga skuli leitað í lokafjárlögum. Það gæti vísað til þess að fjáraukalög skuli aðeins vera ein á árinu, enda virðist sú hefð hafa mótast að frumvarp til fjáraukalaga sé lagt fram einu sinni á ári, þ.e. að hausti, og taki til fjárráðstafana sem nauðsynlegt hefur þótt að grípa til án þess að heimild hafi verið fyrir þeim á fjárlögum. Fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár hafa svo verið afgreidd og samþykkt frá Alþingi í desember eða um líkt leyti og fjárlög næsta árs.
    Það vinnulag að stofna til útgjalda fyrst og leita svo heimilda eftir á er ekki í anda laga um fjárreiður ríkisins. Frumvarp þetta miðar að því að frumvarp til fjáraukalaga verði lagt fyrir Alþingi tvisvar á ári ef þörf krefur, að vori áður en þingi er slitið og svo aftur að hausti í upphafi þings. Frá áramótum til vors geta aðstæður breyst þannig að forsendur verði fyrir breytingum á útgjöldum ríkisins. Ný lög sem hafa í för með sér fjárútlát geta hafa verið samþykkt eða aðrar ástæður verið fyrir breytingum á fjárheimildum sem krefjast afgreiðslu þingsins. Flutningsmaður telur að með þeirri breytingu sem hér er lögð til sé um að ræða eðlilegan og nauðsynlegan þátt í ábyrgð og aðkomu Alþingis að fjármálum ríkisins.
    Annars gilda almennt ákvæði 33. gr. laganna þar sem segir: „Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún enga bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“