Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 45  —  45. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Vilhjálmur Egilsson, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Gunnar Birgisson, Árni R. Árnason, Einar Oddur Kristjánsson,
Ísólfur Gylfi Pálmason, Einar K. Guðfinnsson,Guðjón Guðmundsson,
Tómas Ingi Olrich, Ásta Möller, Sigríður A. Þórðardóttir.


1. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 74% fjárhæðar sem einstaklingar og lögaðilar hafa fengið greidda í arð frá veiðifélögum skv. VIII. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Greinargerð.


    Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt að heimilaður verði frádráttur á mótteknum arði frá veiðifélögum. Í framkvæmd hefur verið mismunur á skattlagningu eftir því hvort jarðareigandi telst stunda atvinnurekstur á þeirri jörð er veiðihlunnindi fylgja. Einstaklingar í rekstri hafa þannig greitt tekjuskatt af slíkum tekjum en aðrir jarðareigendur, sem talist hafa utan rekstrar, hafa greitt 10% fjármagnstekjuskatt af sams konar tekjum. Með lagafrumvarpi þessu er leitast við að jafna þennan mismun, enda eiga ekki sömu sjónarmið við að því er varðar tekjur af þessum eignum og öðrum eignum sem teljast rekstrareignir.
    Ákvæði 1. gr. felur í sér að rekstraraðilum, hvort sem um er að ræða einstaklinga í rekstri eða félög, er heimilaður frádráttur á móti mótteknum arði frá veiðifélögum sem nemur 74% af þeim heildararði sem viðkomandi hefur móttekið. Arður þessi telst til rekstrartekna samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en með því að heimila frádrátt á móti sem nemur 74% af mótteknum arði verður raunskattlagning þessara tekna sem næst 10%, eða 10,14% hjá einstaklingum í rekstri og 7,8% hjá hlutafélagi en 9,6% sé skattlagning hluthafa tekin með í reikninginn.
    Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 126. þingi en komst ekki á dagskrá og er því lagt fram að nýju.