Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 46  —  46. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Árni R. Árnason, Ásta Möller, Vilhjálmur Egilsson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Katrín Fjeldsted, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson, Arnbjörg Sveinsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins.
    Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2011.
    Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.

Greinargerð.


    Nýjar erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfi okkar til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, þ.e. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa í nágrenni þeirra.
    Nýverið hefur opinber bresk stofnun viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína. Rannsóknir framkvæmdar af faraldsfræðingnum Richard Doll leiddu í ljós að börn sem búa í grennd við háspennulínur eiga frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto í Kanada og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs eiga frekar á hættu að fá hvítblæði en börn sem ekki búa við slík skilyrði. Mælingar á heimahögum veikra barna leiddu í ljós að 2 4 sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við há gildi rafsegulsviðs.
    Jafnframt hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna, en það er ekki vitað fyrir víst. Því er tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2011. Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins og hugsanlegt er að hún geti verið afturvirk að einhverju leyti.
    Tillaga sama efnis var lögð fram á 126. þingi en komst ekki á dagskrá og er því lögð fram að nýju.