Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 53  —  53. mál.




Frumvarp til laga



um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


l. gr.

    Ríkissjóði er heimilt að veita tryggingu eða endurtryggingu gegn bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns af notkun loftfars sem stafar af hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða áþekkum atvikum. Trygging ríkissjóðs skal vera í formi viðbótartryggingar við eða endurtryggingar á viðbótartryggingu við ábyrgðartryggingu sem flugrekendur geta keypt á almennum markaði. Tryggingin skal að hámarki tryggja það sem á vantar að vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar sem unnt er að kaupa á almennum markaði nái þeirri lágmarks fjárhæð ábyrgðartryggingar sem viðkomandi flugrekandi hefur skuldbundið sig gagnvart þriðja aðila til þess að hafa í gildi.
    Binda má veitingu tryggingar samkvæmt 1. mgr. þeim skilyrðum og skilmálum sem ríkissjóður álítur nauðsynleg. Heimilt skal að áskilja ríkissjóði gjald fyrir þá tryggingu sem ríkissjóður lætur í té.

2. gr.

    Trygging sem ríkissjóður veitir á grundvelli heimildar samkvæmt 1. gr. skal vera tímabundin og má eigi gilda lengur en til 25. október 2001.
    Trygging ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. skal hafa að geyma áskilnað um rétt ríkissjóðs til þess að segja tryggingu upp á gildistíma hennar ef áhættustig í flugsamgöngum vex eða vátryggjendur hefja að bjóða viðbótar ábyrgðartryggingar.

3. gr.

    Ríkissjóði skal í því skyni að dreifa áhættu ríkissjóðs af veitingu trygginga samkvæmt 1. gr. heimilt að taka þátt í samstarfi við önnur ríki um veitingu eða endurtryggingu ábyrgðartrygginga á borð við þær sem um ræðir í 1. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast að öðru leyti til fylgiskjals I.



Fylgiskjal I.


BRÁÐABIRGÐALÖG
um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur
tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna
að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars
vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.


Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Fjármálaráðherra hefur tjáð mér að brýna nauðsyn beri til þess að ríkissjóður geti tímabundið tekist á hendur tryggingu eða endurtryggingu gegn bótaábyrgð sem íslensk flugfélög kunni að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika. Í lána- og flugvélaleigusamningum íslenskra flugrekenda sem stunda flug til og frá Íslandi og utan lands sé almennt kveðið á um að viðkomandi flugrekandi skuli vátryggður fyrir nánar tiltekinni lágmarksfjárhæð gegn hverju einstöku tjóni af völdum viðkomandi loftfars sem verði hjá þriðja aðila vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka og áþekkra atvika. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum hinn 11. september sl. og vegna þeirrar óvissu sem ríkt hafi í kjölfarið hafi vátryggingarfélög um allan heim sagt upp slíkum ábyrgðartryggingum og tilkynnt flugrekendum að þau muni aðeins veita lítinn hluta af þeirri vátryggingavernd sem þau hafa veitt til þessa. Þessi breyting taki gildi á miðnætti 24. september 2001. Lánveitendur íslenskra flugrekenda og eigendur flugvéla sem þeir nota hafi tilkynnt að það feli í sér vanefndir á viðkomandi láns- og flugvélaleigusamningum uppfylli ábyrgðartryggingar ekki áfram áskilnað viðkomandi samninga. Þótt talsverðar líkur séu taldar á að fljótlega verði unnt að fá keyptar einhverjar viðbótartryggingar á alþjóðlegum tryggingamörkuðum sé ljóst að það muni ekki standa til boða áður en núgildandi ábyrgðartryggingar falla úr gildi. Því liggi fyrir að allt flug íslenskra flugrekenda til og frá landinu og erlendis muni stöðvast á miðnætti mánudaginn 24. september 200l ef ekki hafi fyrir þann tíma tekist að veita þeim nauðsynlegar viðbótartryggingar. Flugfélög um allan heim hafi leitað eftir því hjá stjórnvöldum í heimaríkjum sínum að þau takist á hendur nauðsynlegar ábyrgðartryggingar og hafi í mörgum tilvikum þegar fengist staðfesting á að það verði gert. Sums staðar sé til athugunar að þetta verði gert í formi endurtryggingar ríkisins á ábyrgðartryggingu sem flugrekandi taki hjá vátryggingarfélagi. Á fundi efnahags- og fjármálaráðherra Evrópusambandsins hinn 22. september sl. hafi verið samþykkt að við ríkjandi aðstæður gengi tímabundinn stuðningur ríkisstjórna sambandsins við að veita flugrekendum nauðsynlegar ábyrgðartryggingar ekki gegn meginreglum sambandsins og væri miðað við að slíkar stuðningsaðgerðir gætu staðið í einn mánuð. Afar brýnt sé að flugrekstur íslenskra flugfélaga stöðvist ekki. Ekki verði séð að koma megi í veg fyrir það nema ríkissjóður geti tímabundið veitt flugrekendum tilskilda ábyrgðartryggingu, endurtryggt vátryggingarfélag sem slíka tryggingu veitir eða tekið þátt í samstarfi nágrannaríkja um slíkt, ef þess verði kostur. Lagaheimildar sé þörf til þess að ríkissjóður geti átt atbeina að því að veita nauðsynlegar tryggingar.
    Fyrir því eru hér með sett svofelld bráðabirgðalög samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar:



l. gr.

    Ríkissjóði er heimilt að veita tryggingu eða endurtryggingu gegn bótaábyrgð sem ís-lenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns af notkun loftfars sem stafar af hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða áþekkum atvikum. Trygging ríkissjóðs skal vera í formi viðbótartryggingar við eða endurtryggingar á viðbótartryggingu við ábyrgðartryggingu sem flugrekendur geta keypt á almennum markaði. Tryggingin skal að hámarki tryggja það sem á vantar að vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar sem unnt er að kaupa á almennum markaði nái þeirri lágmarks fjárhæð ábyrgðartryggingar sem viðkomandi flugrekandi hefur skuldbundið sig gagnvart þriðja aðila til þess að hafa í gildi.
    Binda má veitingu tryggingar samkvæmt 1. mgr. þeim skilyrðum og skilmálum sem ríkissjóður álítur nauðsynleg. Heimilt skal að áskilja ríkissjóði gjald fyrir þá tryggingu sem ríkissjóður lætur í té.

2. gr.

    Trygging sem ríkissjóður veitir á grundvelli heimildar samkvæmt 1. gr. skal vera tímabundin og má eigi gilda lengur en til 25. október 2001.
    Trygging ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. skal hafa að geyma áskilnað um rétt ríkissjóðs til þess að segja tryggingu upp á gildistíma hennar ef áhættustig í flugsamgöngum vex eða vátryggjendur hefja að bjóða viðbótar ábyrgðartryggingar.

3. gr.

    Ríkissjóði skal í því skyni að dreifa áhættu ríkissjóðs af veitingu trygginga samkvæmt 1. gr. heimilt að taka þátt í samstarfi við önnur ríki um veitingu eða endurtryggingu ábyrgðartrygginga á borð við þær sem um ræðir í 1. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 23. september 2001.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L.S.)

_____________
Davíð Oddsson.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa.

Umsögn um frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.


    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að ríkissjóður takist á hendur tímabundið til 25. október 2001 að veita tryggingu eða endurtryggingu gegn bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns af notkun loftfars sem stafar af hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða áþekkum atvikum. Tryggingafélagi hefur verið falið að annast um tryggingarnar en ríkissjóður tekur ábyrgð á hugsanlegum tjónabótum sem endurtryggjandi. Gert er ráð fyrir að innheimt verði iðgjald fyrir hvern farþega og að 15% af því verði varið til að mæta kostnaði tryggingarfélagsins en að 85% renni í ríkissjóð. Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð svo fremi sem ekki kemur til atvika sem valdið geta bótaábyrgð á tímabilinu.